stofnuð árið 2000

Úr ræðu formanns
á stofnfundi Hollvinasamtakanna árið 2000

Ágætu fundarmenn og félagar.

Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fundar fyrir hönd undirbúningsnefndar, sem undirbúið hefur stofnun Hollvinasamtaka. Undirskriftalistar hafa nú verið innkallaðir frá flestum stöðum. Hér eru 480 nöfn þeirra sem hafa skráð sig sem félaga. Nokkrir listar ósóttir úr nágrannabyggðarlögum. Skráning er opin til ársloka og teljast allir stofnendur sem skrifa sig inn á þessu ári.

Aðdragandi þessa undirbúnings er allnokkur, en fyrirvarinn mjög stuttur. Ákvörðun stjórnarinnar um lokun Fæðingardeildar tímabundið hleypti skriðunni af stað. Við slíkt verður ekki unað. Mér fannst að er ég kom hingað heim, að mikilvægi Fjórðungssjúkrahússins væri augljóst, bæði sem vettvangur sóknarprestsins, ekki aðeins að vitja sjúklinga á erfiðum stundum, heldur einnig að bæta þyrfti hag stofnunarinnar, sem lengi hefur átt við þungan róður að glíma, fjárhagslega.

Frá fyrstu tíð hefur Fjórðungssjúkrahúsið verið í forystu heilsugæslunnar fyrir fjórðunginn og vart hægt að hugsa sér að annað komi í stað þess. Staðsetning þess var mikilvæg á sínum tíma. Hlutverki sínu sinnti það vel frá upphafi. Vegna fjármagsskorts til nauðsynlegra framkvæmda hallaði æ meir undan fæti, og endurnýjun tækjakaupa og rekstur urðu æ þyngri baggi. Úttekt fagmanns leiddi til þess að annað hvort varð að hætta starfi eða eflast verulega með öðrum leiðum en hefðbundnum.

Fjársöfnun til tækjakaupa sem fór af stað að frumkvæði félagasamtaka í bænum, leiddi til þess að gríðarleg endurnýjun og vakning til uppbyggingar átti sér stað. Sjúkrahúsið átti víða stuðningsmenn sem voru tilbúnir til þess að styrkja ákveðin tækjakaup fyrir sjúkrahúsið. Hollvinasamtökin eru nú orðin að veruleika. Þau vilja stuðla að framförum í heilsugæslu, málefnalegri umfjöllun um sjúkrahúsið, stöðu þess og möguleika. Leita leiða með stjórnendum til þess að gera gott sjúkrahús betra. Hér vill almenningur koma að liðveislu til góðra mála. Við höfum öll vissar væntingar en markmiðin eiga að leiða okkur til sameiginlegs átaks, sem mun leiða til góðs fyrir stofnunina, þá sem njóta þjónustunnar og þá sem inna þjónustuna af hendi. Setjum okkur það markmið að gera gott sjúkrahús enn betra.

Með stuðningi fólksins í fjórðungnum ætti þetta að takast. Ég þakka öllum sem lagt hafa sitt af mörkum til þessa máls með undirskriftum og hvatningu. Stjórnin mun leita leiða til að upplýsa félaga og almenning um stöðu og málefni Fjórðungssjúkrahússins í ljósi þeirra áforma og fyrirheita sem samtökin munu beita sér fyrir. Við eflum Fjórðungssjúkrahúsið fyrir fólkið, fyrir fjórðunginn og fyrir framtíðina.

sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson. 
 
Með Hollvina-
samtökunum er markmiðiðstyðja við og efla starfsemi FSN með sem víðtækustum hætti ...
 
... og veita stofnuninni fjárhags-
og siðferðislegan stuðning og hvatningu í framfara- og hagsmunamálum.
 
LESTU um aðrag-
anda stofnunar og um markmið Holl-vinasamtaka FSN og vertu HOLLVINUR Í RAUN.
 
Smelltu þér á vef FSN!
 
Rómarvefurinn hýsir vef Hollvina.
 
Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað | sigurdur.runar@kirkjan.is