stofnuð árið 2000
Hollvinir í raun
um aðdraganda stofnunar og markmið Hollvinasamtaka FSN

Samtökin voru stofnuð á fundi í Neskaupstað þann 15. júní árið 2000. Þann fund sóttu milli 30-40 manns. Á undan stofnun félagsins höfðu verið haldnir undirbúningsfundir og lögð fram drög að lögum samtakanna og ýmis formsatriði könnuð í tengslum við önnur hollvinasamtök í landinu.

Stofnun samtakanna hafði verið í undirbúningi um tíma og undirskriftarlistar til söfnunar hollvina legið frammi í nokkrum byggðarlögum á Austurlandi. Á stofnfundinum var kosin fimm manna stjórn, en sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson úr Neskaupstað valinn formaður.

Hollvinasamtök hafa verið stofnuð víða á undanförnum árum. Hollvinasamtök hafa það að leiðarljósi að leita stuðnings meðal almennings og efla samtakamátt hins almenna íbúa eða félagsmanns sem vill leggja stofnuninni lið. Markmið þeirra er að auka tengsl við viðkomandi stofnun, styðja við starfsemi hennar, bæta aðbúnað og efla nýja áfanga.

Markmið hollvinasamtaka getur verið margvíslegt, allt eftir ástæðum. Þau eru stofnuð í tengslum við fjölþætta starfsemi, hafa hagsmuna að gæta fyrir viðkomandi eða standa vörð um framtíðarsýn og þróunarmöguleika viðkomandi stofnunar eða samtaka. Með málefnalegri umræðu taka hollvinasamtök forystu um velferð og hagsmuni meðal almennings, þar sem stofnunin sem slík er ekki í stakk búin til að efla sinn hag vegna yfirstandandi, eða aðsteðjandi erfiðleika, tímabundið eða til framtíðar. Viðbótarstuðningur er því mörgum stofnunum nauðsyn og styrkur.

Með Hollvinasamtökunum er markmiðið að styðja við og efla starfsemi Fjórðungssjúkrahússins með sem víðtækustum hætti. Í lögum um félagið segir m.a:
  • Að auka tengsl almennings við stofnunina og efla hag hennar með því að standa vörð um stofnunina og starfsemi hennar.
  • Að veita stofnuninni fjárhags- og siðferðilegan stuðning og hvatningu í ýmsum framfara- og hagsmunamálum.
  • Einnig að stuðla að velferð Fjórungssjúkrahússins, leggja því lið fjárhagslega með ýmsum hætti og stuðla að endurnýjun tækja eftir því sem við verður komið.
Árangur samtakanna er enn sem komið er ekki mælanlegur í þeim skilningi að á borðinu séu þegar mál sem hafa náð í höfn. Markmið samtakanna er að vinna á sem breiðustum grundvelli og stuðla að hag og velferð sjúkrahússins og heilsugæslunnar á Austurlandi með ýmsum hætti. Ljóst er að söfnunarátak til kaupa á lungnavél fyrir sjúkrahúsið er mikilvægt málefni, sem við ættum að byrja á. Síðar gætu stærri viðfangsefni komið til, s.s. kaup á sneiðmyndartæki.

Heilbrigðisráðherra hefur komið í heimsókn og litið á stofnunina og má ætla að hann sé velviljaður því að bæta úr ýmsum vanda sem steðjað hefur að stofnuninni á síðustu árum. Hann er einnig kunnugur fjársvelti því sem ríkti við stofnunina og hefur haldið starfsemi hennar niðri. Vonandi fer að birta í þeim efnum. Eins er nú litið svo á að landsbyggðarsjúkrahúsin verði staðsett á Ísafirði, Akureyri, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum sem gefur vísbendingar um að þetta sjúkrahrahús sé bæði bráðasjúkrahús fyrir fjórðunginn og þjóni öllu Austurlandi. Því er mikilvægt að efla það með öllum mögulegum ráðum, styðja starfsfólk þess með hvatningu, og leggja því lið með ýmsum hætti.

Nokkur blaðaskrif urðu um ferilverk á sl. vetri. Þar komu Hollvinasamtökin inn í umræðuna og sýndu að þau vilja standa vörð um hagsmuni heilsugæslunnar eins og frekast er unnt. Með því sem sagt var í þeirri umræðu gerðu Hollvinasamtökin vart við sig og sýndu að þau eru vakandi fyrir hag stofnunarinnar og heilsugæslu á landsbyggðinni. Markmið okkar í samtökunum eru þau að stuðla að því að eiga betra sjúkrahús og betri heilsugæslu. Með tilkomu álvers og stóriðju er líklegt að sjúkrahúsið muni verða aðal heilsugæslusjúkrahús í tengslum við eftirlit og greiningu á sjúkdómum og slysum og því mikilvægt að því sé búin stakkur til að mæta auknum kröfum.

Með umræðu um sjúkrahúsið og stöðu heilsugæslunnar er mikilsvert að við stöndum saman um öflugt sjúkrahús. Staðsetningu þess verður ekki breytt og Heilbrigðisstofnun Austurlands vinnur nú að markvissri uppbyggingu og samstöðu um öfluga heilsugæslu fyrir Austurland. Þar verður fjórðungssjúkrahúsið flaggskipið sem við eigum öll, getum öll veitt lið og eflt til muna.

Með góðu starfsliði sem þar vinnur, komu sérfræðinga til starfa árstíðabundið og bættu húsnæði verður staða stofnunarinnar sem fjórungssjúkrahúss mun sterkari til frambúðar. Við eigum hér mikilæga stofnun sem við skulum láta okkur varða mjög og gæta að hag hennar. Það getum við í nafni Hollvinasamtakanna sem munu beita sér fyrir ýmsum máefnum og kynna þau jafnharðan og blása til samstöðu um mikilvæg mál, til hagsóta fyrir austfirska landsbyggð og betri heilsugæslu í fjórðungnum.

 
 
Með Hollvina-
samtökunum er markmiðiðstyðja við og efla starfsemi FSN með sem víðtækustum hætti ...
 
... og veita stofnuninni fjárhags-
og siðferðislegan stuðning og hvatningu í framfara- og hagsmunamálum.
 
LESTU um aðrag-
anda stofnunar og um markmið Holl-vinasamtaka FSN og vertu HOLLVINUR Í RAUN.
 
Smelltu þér á vef FSN!
 
Rómarvefurinn hýsir vef Hollvina.
 
Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað | sigurdur.runar@kirkjan.is